top of page
Search

Að endurvinna hugsunarhátt

  • katrin729
  • May 6, 2021
  • 3 min read

Kría Sól Guðjónsdóttir


Í gegnum aldirnar hefur maðurinn velt fyrir sér heimspekilegum spurningum. Við þekkjum heimspekinga eins og Sókrates og Plató sem gerðu það að ævistarfi sínu að svara ýmsum spurningum um líf og tilveru mannsins sem engin augljós svör eru við. Í raun er hægt að setja eitt stórt spurningarmerki við tilveru okkar og þær siðferðislegu spurningar sem fylgja henni. Ég las erlenda grein um daginn sem setti fram áhugaverða spurningu varðandi siðferði mannsins. Við könnumst öll við það að fara í Bónus eða Krónuna og taka okkur kerru til þess að auðvelda burð varnings. En hvað við gerum svo við kerruna? Ætlum við að skila henni eða skilja hana eftir? Ég meina, við græðum ekkert á því að skila kerrunni og það getur örugglega einhver annar bara gert það.

Hlýnun jarðar og loftslagsbreytingar eru eitt stærsta vandamál sem mannkynið hefur staðið frammi fyrir - líklegast munum við ekki fá stærra verkefni til að glíma við í framtíðinni. En hvers vegna bregðumst við ekki sterkar við? Líkt og við höfum til dæmis gert með Covid faraldurinn? Af hverju er svona ótrúlega erfitt fyrir alla að skynja alvarleika málsins?

Ábyrgð, orð sem er vel þekkt en allir vilja forðast. Af hverju þarf ég að taka ábyrgð? Það er góð spurning. Það er ekki eins og það sé hægt að kenna einni manneskju um það að sjórinn sé að súrna, vistkerfið sé að glatast og jöklar heimsins séu að bráðna. Þetta er vandamál sem skapaðist af heildinni og þarf þar með að vera leyst af heildinni.

Á tímum tækni, internets og ofgnóttar afþreyingar sem hjálpar okkar að komast í gegnum alla þá erfiðleika sem hversdagsleikinn býður upp á er augljóst að við erum vön þægindum. Þægindi er það sem við lifum fyrir, við forðumst óþægilegar aðstæður, hluti og samskipti. Þess vegna er mjög skiljanlegt að fólk sé ekki tilbúið að fórna þeim þægindum sem samfélag nútímans hefur að bjóða upp á. Í þann tíma sem rætt hefur verið um umhverfismál er eins og það sé búið að þynna umræðuna með vatni. Það er einhvern veginn búið að smætta umræðuna niður í Instagram færslur um skyndilausnir, hjóla af og til Í vinnuna og kaupa ekki 300 kíló af matvælum í Costco. Auðvitað skipta ákvarðanir á við þessar máli og það er mikilvægt að innleiða umhverfisvernd inn í þitt daglega líf, en hvað skiptir þig máli? Af hverju skiptir umhverfisvernd þig máli? Hvernig getum við komist frá þessari kjarnlausu umræðu svo hver og einn geti fundið kjarnann í því sem drífur hann áfram í átt að umhverfisvænni lífsstíl?

Kjarni, innsti og oft veigamesti hluti fyrirbæris. Líkamar okkar geyma frumukjarna, atóm geyma atómkjarna og í tungumálinu tölum við um kjarna málefna. Heilt yfir eru kjarnar mjög mikilvægir. Þess vegna er glatað þegar hlutir verða kjarnlausir. Ef hver og einn einstaklingur hugsar „Af hverju skipta umhverfismál mig máli?“ myndu líklegast mörg skemmtileg og áhugaverð svör koma upp á yfirborðið. Hér eru nokkrar ástæður fyrir mikilvægi umhverfisverndar:

· Við gerð pálmaolíu eru heimkynni og líf órangúta og annara dýra eyðilögð.

· Með tíðni bráðnandi jökla geta ýmsar veirur og bakteríur þiðnað með ísnum.

· Dýrategundir deyja út.

· Skógareldar.

· Hungursneyð.

· Vatnsskortur.

· Mengað andrúmsloft.

Augljóst er að allt sem upp er talið hér ofar eru alvarleg vandamál sem þarf að leysa eða koma í veg fyrir. Það sem er þó athyglisvert að skoða er að margar af þessum sorglegu staðreyndum eru fjarlægar Íslandi og snerta þar með ekki beint tilveru okkar sem óneitanlega er rík af forréttindum. Maður þarf ekki nema aðeins að víkka þann sjóndeildarhring sem maður hefur þróað með sér til þess að sjá stóru myndina.

Hugsum um aðgerðarleysi í umhverfismálum eins og Dómínó spilið. Ef þú fellir einn kubb, þá detta þeir allir. Ef við gerum ekkert og bíðum eftir að fyrsti kubburinn detti, þá er líklegt að restin fylgi. Hugsum um þau þægindi og forréttindi sem við búum við sem einn af þessum kubbum. Það er kjarni málsins. Sú er niðurstaðan.

 
 
 

Recent Posts

See All
Lesist síðar

Höfundur: Svandís Salómonsdóttir (2022). Það hefur ekki farið framhjá neinum að nú er umhverfisvika í MS og þá er vert að velta fyrir sér...

 
 
 
Er keypt of mikið inn á heimilin?

Anastasía Þórðardóttir (2022). Ég las grein í dag eftir Ástu Sigríði Fjeldsted um matarsóun sem að vakti minn áhuga að fjalla um...

 
 
 

Comments


Post: Blog2_Post
  • Facebook
  • Twitter
  • LinkedIn

©2021 by Umhverfisvika í MS. Proudly created with Wix.com

bottom of page