top of page
Search

„Eitt af stærstu og fáránlegustu vandamálunum í dag...“

  • katrin729
  • May 6, 2021
  • 2 min read

NN


Eitt af stærstu og fáránlegustu vandamálunum í dag er án efa neysluhyggja og þá aðallega neysluhyggja ungmenna. Ef þú lítur á unga fólkið í kringum þig og skoðar fötin þeirra, hvað sérðu? Já, líkurnar á því að þú sjáir merkjavörur alls staðar eru ansi háar. Hver er munurinn á merkjavörum og venjulegum vörum? Eini munurinn á þeim er merkið og verðið. Daglega sjáum við til dæmis þessi merki: Nike, Adidas, The North Face og 66° norður. En við gætum einnig komið auga á óeðlilega dýr merki t.d. Gucci, Louis Vuitton, Balenciaga, Cartier, Fendi eða Versace. Þessi merki gefa út a.m.k. tvær fatalínur á ári og í hvert skipti sem ný lína kemur út, dettur hin úr tísku. Já einmitt, tíska, asnalegt fyrirbæri sem segir okkur hvað er flott og hvað ekki og hvernig við eigum að klæða okkur. Þurfum við í alvörunni að fá annað fólk til að mynda skoðanir fyrir okkur? Ætlum við að tengja neyslu okkar við skoðanir annarra og leit okkar að samþykki í samfélaginu? Þarf það að bitna á plánetunni okkar?


Það er eins og fólk hafi gleymt tilgangi fatnaðs. Föt eiga að halda á okkur hlýju og eru til staðar svo við séum ekki berrössuð allan liðlangan daginn. Föt eru ekki einnota, þau detta ekki úr tísku og þau nýtast lengur en í eitt ár. Almennileg föt geta endst í áratugi og ef þau eyðileggjast er alltaf hægt að endurnýta þau. Ekki kaupa föt í þeim tilgangi að klæðast þeim í eitt sumar og svo aldrei aftur. Kauptu þér föt sem þú getur notað og reyndu að kaupa föt sem eru nú þegar notuð. Endurnýttu efnið svo fjöldaframleiðsa tískufyrirtækja hætti.


Að panta af netinu er baneitrað fyrir umhverfið. Þú pantar kannski einn lítinn pakka og færð hann sendann heim, þá er pöntuninni pakkað inn í margar umbúðir og er keyrð út. Sendingin þarf svo að koma til landsins með flugi eða skipi og er síðan flutt með bíl í pósthús eða heim til þín. Svo tekur þú upp úr pakkanum og hendir mörgum lögum af plast- og pappa umbúðum. Allt þetta ferli mengar umhverfið óeðlilega mikið og það er bara flutningurinn. Ímyndaðu þér hvað framleiðslan mengi mikið. Og fyrir hvað? Einn lítinn pakka? Er það þess virði? Við á Íslandi erum mjög snobbuð þegar það kemur að fatnaði en við erum alls ekki ein um það. Við verðum að taka okkur á til þess að sjá almennilega breytingu og bjartari framtíð fyrir bæði okkur og umhverfið. Eyðum þessari hugmynd um tísku og tískutímabil. Reynum að draga úr fjöldaframleiðslu og nýta fötin okkar til fulls. Búum til ný föt eftir þörfum úr endurnýttum efnum. Í stað þess að henda plasti í sjóinn gætum við brotið það niður í plastagnir og búið til föt úr þeim. Það eru endalausir möguleikar til að endurnýja og bæta umhverfið, við verðum bara að nenna að vinna í því.


Áður en þú kaupir þér eitthvað skaltu spyrja þig að þessu... er það þess virði?

 
 
 

Recent Posts

See All
Lesist síðar

Höfundur: Svandís Salómonsdóttir (2022). Það hefur ekki farið framhjá neinum að nú er umhverfisvika í MS og þá er vert að velta fyrir sér...

 
 
 
Er keypt of mikið inn á heimilin?

Anastasía Þórðardóttir (2022). Ég las grein í dag eftir Ástu Sigríði Fjeldsted um matarsóun sem að vakti minn áhuga að fjalla um...

 
 
 

Comments


Post: Blog2_Post
  • Facebook
  • Twitter
  • LinkedIn

©2021 by Umhverfisvika í MS. Proudly created with Wix.com

bottom of page