Hugsum um lífríki okkar á jörðinni
- katrin729
- May 6, 2021
- 3 min read
Birta Lóa Styrmisdóttir
Á hverju ári fáum við fréttir af efnahagsráðstefnunni í Davos. Þar kemur saman áhrifafólk úr viðskiptum og stjórnmálum til að ræða um efnahagslega og félagslega stöðu heimsins. Umhverfismál skipa þar veigamikinn sess. Fundur Alþjóðaefnahagsráðsins í Davos í Sviss laðar til sín um 2.500 manns frá yfir hundrað löndum á ári hverju. Markmið forsvarsmanna efnahags ráðstefnunnar er að setja mál á dagskrá í byrjun hvers árs. Oftar en ekki er það þó þeir sem sækja ráðstefnuna sem liggja undir ámæli fyrir að vera hvað mestu umhverfissóðarnir, þar sem stærsti hluti ráðstefnugesta fer allra sinna ferða í einkaþotum.
Getum útrýmt heilu vistkerfunum án þess að taka eftir því
Árið 2019 hélt breski náttúrufræðingurinn og kvikmyndagerðarmaðurinn David Attenborough erindi á ráðstefnunni þar sem hann sagði að mannkynið ætti það á hættu að ganga af náttúrunni dauðri og að erfitt væri að ofmeta hættuna af loftslagsbreytingum af völdum manna.
Attenborough sagði meðal annars frá því að fyrir iðnbyltinguna hefur meðalhiti jarðar hækkað um eina gráðu og hafa vísindamenn greint frá því að mjög líklegt er að hlýnunin hækki upp í þrjár gráður eða jafnvel meira fyrir aldarlok. Það gæti gerst ef menn fara ekki að draga hratt úr sinni losun á gróðurhúsalofttegundum. Hlýnuninni fylgja slæmar afleðingar, til dæmis hækkun sjávar, verri þurrkar og auknar veðurbreytingar svo eitthvað sé nefnt.
Einnig bætti hann við: „Þrátt fyrir að mannkynið kæmist nú víðar um jörðina og geiminn en nokkru sinni áður hefði það aldrei verið eins úr snertingu við náttúruna. Við erum núna svo mörg, svo máttug, svo alltumlykjandi, tækin sem við höfum til eyðileggingar eru svo umfangsmikil og svo ógnvekjandi að við getum útrýmt heilu vistkerfunum án þess að taka eftir því.“
Jarðarbúar eru að nota meira en endurvinna minna
Í fyrra var kynnt á ráðstefnunni svört skýrsla um umhverfismál sem sýnir að auðlindanotkun er orðið að sögulegri aukningu. Mannkynið hefur aldrei þessu vant notað auðlindir jarðar eins mikið og núna. Á einu ári hefur um það bil 100,6 milljarðar tonna af ýmiskonar jarðefnum og eldsneyti verið notaðir á einu ári. Alltof lítið ber á sjálfbærni og endurvinnsla minnkar.
Freyr Eyjólfsson rýndi skýrsluna sem nær yfir árið 2017 í vefritinu Kjarnanum í fyrra. Þar kemur m.a fram að rúmlega helmingur auðlinda sem notaðar voru á þessu ári eru jarðefni sem notuð eru í byggingariðnaði, meðal annars sandur, leir, sement, möl og málmar. Jarðarbúar eru að nota miklu meira en endurvinna minna: Eldsneytisnotkun, skógarhögg og efnisvinnsla er orðin fjórum sinnum umfangsmeiri en hún var árið 1970, í engu samræmi við þá mannfjölgun sem hefur verið að aukast með árunum á sama tíma. Á síðastliðnum tveimur árum hefur verið 8% aukning á bæði neyslu og eyðslu á heimsvísu og á sama tíma hefur endurvinnsla verið að minnka um 0.5% eða úr 9,1% í 8,6%. Við erum því ekkert að bregðast við yfirvofandi hamfarahlýnun. Skýrslan segir umbúðalaust að ef við höldum áfram að ganga á auðlindir jarðar með þessum hætti þá munu afleiðingarnar verða hryllilegar fyrir allt lífríki á jörðinni eins og segir í greininni.
Ljóst má vera að mannkynið er engan veginn að gera nóg til að sporna gegn hamfarahlýnun. Ár eftir ár erum við minnt á að jarðarbúar ganga hratt á auðlindir jarðar. Það er auðvitað það allra mikilvægasta að valdamenn sem bera ábyrgð taki fyrsta skrefið hjá sér, til dæmis með því að ferðast ekki með einkaþotu. Þeir eiga að vera fyrirmynd okkar í umhverfismálum og er ekki einungis nóg að segja öllum öðrum að taka þetta í sínar hendur. Vissulega hefur verið vitundarvakning hjá almenningi og stjórnvöldum víða, en við öll höfum öll þau tæki og tól til að gera breytingar svo heimurinn vaxi með okkur til hins betra.
Heimildir:
Freyr Eyjólfsson. (2020, 20. febrúar). Neysla og úrgangur eykst á heimsvísu – Ákall um nýjar, grænar lausnir. Kjarninn. Sótt af: https://kjarninn.is/skodun/2020-02-20-neysla-og-urgangur-eykst-a-heimsvisu-akall-um-nyjargraenar-lausnir/
Halldór Armand Ásgeirsson. (2021, 20. apríl). Græn fátækt er framtíðin. Ruv. Sótt af: https://www.ruv.is/frett/2021/04/20/graen-fataekt-er-framtidin?term=halld%C3%B3r%20arm and&rtype=news&slot=2
Kjartan Kjartansson. (2019, 22. janúar). Attenborough í Davos: Erfitt að ofmeta loftslagsvána. Vísir. Sótt af: https://www.visir.is/g/2019522932d
댓글