Jarðarbúar í hættu
- katrin729
- May 6, 2022
- 2 min read
Embla Sól Brynjarsdóttir Dungal (2022).
Eins og flest ykkar vita erum við stödd í hættuástandi varðandi umhverfið okkar. Jörðin okkar er smátt og smátt að tortímast af okkar völdum og þurfum við að stíga inn í og hjálpa henni, bæði fyrir dýraríkið og komandi kynslóðir.
Helstu þátttakendur jarðarinnar í losun gróðurhúsalofttegunda eru stór fyrirtæki sem menga með framleiðslu sinni. Afleiðingar loftslagsbreytinga af völdum losunar gróðurhúsalofttegunda eru meðal annars aftakaveður, truflanir á fæðuframboði, auknir skógareldar og bráðnun ísjaka, auk þess að þau geta valdið fólki heilsutjóni svo sem öndunarfærasjúkdómum frá reyk og loftmengun.
Mikið hefur verið pælt í framleiðslu fata á síðastliðnum árum og allskyns greinar birtar um mismunandi hliðar vandamálsins. Samkvæmt Clean Clothes Campaign, samtökum tileinkuðum þessu vandamáli, er fataiðnaðurinn einn stærsti kolefnismengunarvaldurinn á jörðinni og einn stærsti framleiðandi úrgangs. Þrjár af hverjum fimm af 100 milljörðum flíka sem framleiddar eru munu lenda á urðunarstað innan árs. Það sem við getum gert til að reyna að minnka þessa tölfræði örlítið er að versla ekki við hraðtísku (´fast fashion´) fyrirtæki og kjósa frekar að versla notuð föt, auk þess að finna okkar eigin stíl og ekki freistast af tímabundnum tískustraumum.
Á milli áranna 2000 og 2014 hefur fataframleiðsla tvöfaldast og meðalneytandi kaupir 60% fleiri flíkur á hverju ári. Samtímis eru þessi föt geymd í helmingi styttri tíma en fyrir fimmtán árum. Vandamálið liggur einnig í því hvað þessi hraðtískufyrirtæki eru að selja fötin svo ódýr og þar af leiðandi gengur fólk ekki í um það bil 50% af fataskápnum sínum. Fata- og skóiðnaðurinn veldur meira en 8% af loftslagsáhrifum heimsins. Meira en allt flug og sjóflutningar til útlanda samanlagt.
Hvað getum við sem einstaklingar gert? Helstu hraðtískufyrirtækin sem við höfum aðgang að hér á landi eru Zara og H&M. Mjög margir hérlendis kjósa einnig að versla á netinu við Shein og ASOS sem eru ekkert skárri. Góður valkostur á móti þessum fyrirtækjum eru t.d. Hertex, Extraloppan eða Rauði Krossinn sem selja notaðar flíkur. Einnig taka þau við notuðum flíkum frá almenningi svo í staðinn fyrir að henda flíkum er hægt að gefa þær til þeirra svo einhver annar getur notið góðs af flíkinni. Hraðtískufyrirtæki sérhæfa sig í, að sjálfsögðu, hraðtísku. Fötin eru ekki sniðug fjárfesting þar sem þau munu vera talin hallærisleg innan nokkurra mánaða. Ég t.d. kýs sjálf að versla mjög mikið við fatamarkaðina og finn oft glæsilegar flíkur í mínum stíl. Ég hef þróað stílinn minn í aðallega einlituð föt sem ég get parað saman við nánast hvað sem er. Bæði er það hagfræðilega sniðugt til að spara peninga í langtíma og umhverfisvænna.
Hraðtískufyrirtæki eru einn af helstu mengunarvöldum nútímans og því er mjög mikilvægt að við sem búum saman hérna á jörðinni tökumst í hendur til að vinna á móti þeim. Notaðar flíkur eru ekkert verri en glænýjar, ódýrar og illa gerðar flíkur sem endast ekki og hafa ekki tímalausa hönnun. Þau detta hratt úr tísku og enda flest á urðunarstað sem leiðir til aukningar í losun gróðurhúsalofttegunda.
Comments