Matarsóun verður að stöðva!
- katrin729
- May 6, 2021
- 2 min read
Sigrún Kumkum Gunnarsdóttir
Matarsóun er stórt vandamál sem heimurinn er að glíma við í dag. Einn stærsti ókosturinn við matarsóun er að þegar matnum hefur verið hent og síðan fluttur á urðunarstaði fer hann að rotna. Við það verður til mikið magn af metani og annarri mengun sem dreifist út í umhverfið. Rotnunin losar einnig gróðurhúsalofttegundir og jafnvel CO2. Ef okkur tækist að minnka matarsóun um helming myndi það gagnast umhverfinu verulega og draga úr þörf á vatni, fræjum, fóðri og öðrum dýrmætum auðlindum sem þarf að nota við að rækta mat.
Maturinn sem fer í ruslið er oftast í góðu lagi og ætti frekar að vera geymdur í ísskápnum og borðaður næsta dag. Til þess að minnka matarsóun þarf að gæta þess að kaupa ekki of mikið af matvörum, sem enda oft á því að mygla í ísskápnum og er síðan hent. Gott er að reyna að hafa einn til tvo daga í viku þar sem borðaður er allur afgangurinn sem er í ísskápnum en það verður til þess að minna er hent af mat. Það eru margar fleiri leiðir til að minnka matarsóun á heimilum eins og að gera alltaf innkaupalista áður en farið er í búð, frysta matvæli til þess að koma í veg fyrir að þau spillist og hugsa sig tvisvar um áður en mat er hent. Hvert heimili getur sparað mikla fjármuni með því að minnka matarsóun því matur sem er hent í ruslið kostar jafn mikið og matur sem er borðaður.
Vitundarvakning um vandann eykst stöðugt. Við verðum einnig að vera meðvituð um að matur er ekki sjálfsagður, það eru milljónir manna sem eru svangir á hverjum einasta degi og fá engan næringarríkan mat. Gagnvart þessu fólki er líka óverjandi að við skulum leyfa okkur að henda allt að þriðjungi af þeim mat sem er framleiddur.
Það er mikilvægt að hver einstaklingur leggi sitt af mörkum til að minnka matarsóun, en stjórnvöld, bændur og fyrirtæki þurfa líka að gera breytingar svo að þessum markmiðum verði náð. Við þurfum öll að vera meðvituð um vandamálið, gera okkar allra besta og standa saman.
Heimildir:
Margrét Kristmannsdóttir. (2021, 6. mars). Eldamennska og afgangar. Fréttablaðið. Sótt af https://www.frettabladid.is/skodun/eldamennska-og-afgangar/
Comments