Svifryk er að eyðileggja umhverfið og heilsu okkar
- katrin729
- May 5, 2021
- 2 min read
Vigfús Máni Ólafsson
Eitt af stóru vandamálum nútímans er svifryk en það kemur helst frá nagladekkjum sem spæna upp malbikið. Svifrykið getur verið hættulegt en versta við þær fregnir er það að við erum stöðugt að anda rykinu niður í lungun á okkur og það kemur jafnframt fyrir að við öndum því í blóðrásina eins og Gauti Kristmannsson fjallaði um í Fréttablaðinu nýlega (Nagladekkjaóværan, 15. apríl 2021). Það er t.d. óhugnanlegt að hugsa hvað maður andar inn miklu svifryki þegar maður er í gönguferð við Sæbrautina og það lætur mann vilja fara í gönguferð annar staðar sem er synd því það er fallegt að taka göngutúr fram með sjónum.
Svifrykið stafar helst af nagladekkjum og það er staðreynd samkvæmt nýjustu rannsóknum. En spurningin er sú hvort að það sé þess virði að keyra frekar á nagladekkjum heldur en á heilsársdekkjum. Mér finnst það allavega alls ekki vera þess virði. Það er sérstaklega óþarfi fyrir fólk að keyra á nagladekkjum í borginni þar sem að færðin er oftast ekki slæm.
Það eru margar leiðir til að minnka svifryk t.d. að hjóla eða notfæra sér strætó. Eins finnst mér að allir ættu án efa að nota heilsárs dekk í stað nagladekkja. Persónulega hef ég og fjölskylda mín notast við heilsársdekk í nokkur ár eftir að við áttuðum okkar á því hvað svifryk hefur vond áhrif á jörðina og á heilsu fólks.
Við þurfum að taka á þessu svifryksvandamáli sem fyrst en ef allir hjálpast að þá verður þetta ekkert vandamál. Þetta er að eyðileggja umhverfið og heilsu okkar. Ég held að það sé sniðugt fyrir fólk að setja sér markmið sem tengjast því hvernig við getum minnkað svifryk t.d. hjóla, taka strætó og nota heilsársdekk. Persónulega stefni ég að því að hjóla meira og þá sérstaklega ef ég er að ferðast stuttar vegalengdir eins og þegar ég fer á æfingu. Það er ekki einungis gott fyrir jörðina heldur er mikið betra fyrir heilsuna okkar að hjóla heldur en að sitja í bíl.
Comments